Fullkomið tímabil Íslendinganna hélt áfram

Ómar Ingi Magnússon hefur spilað mjög vel á tímabilinu.
Ómar Ingi Magnússon hefur spilað mjög vel á tímabilinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fullkomið tímabil þýska handboltaliðsins Magdeburg hélt áfram í dag er liðið vann sterkan 33:28-heimasigur á Flensborg. Liðið er í toppsæti þýsku 1. deildarinnar með fullt hús stiga eftir sjö leiki.

Þá vann Magdeburg til gullverðlauna í heimsbikarnum í Sádi-Arabíu um síðustu helgi og hefur því unnið alla ellefu leiki sína á leiktíðinni til þessa.

Ómar Ingi Magnússon var góður að vanda hjá Magdeburg með átta mörk en þrjú markanna komu af vítalínunni. Gísli Þorgeir Kristjánsson bætti við einu marki fyrir Magdeburg.

Ómar, sem varð markakóngur í deildinni á síðustu leiktíð, er í þriðja sæti yfir markahæstu leikmenn deildarinnar á tímabilinu með 43 mörk. Aðeins Marchel Schiller og Christoph Steiner hafa skorað meira eða 47 og 46 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka