Afturelding og Grótta skildu jöfn, 30:30, í æsispennandi leik liðanna í Olísdeild karla í handknattleik í Mosfellsbænum í kvöld.
Bæði lið hafa farið nokkuð hægt af stað á Íslandsmótinu en Grótta er enn án sigurs og Afturelding er nú með fjögur stig eftir fjórar umferðir. Leikurinn var lengst af hnífjafn en gestirnir í Gróttu voru þó skrefi á undan framan af og einu marki yfir í hálfleik, 13:14.
Það voru svo aftur á móti heimamenn sem voru lengst af marki yfir á endasprettinum eða þangað til að Jakob Ingi Stefánsson jafnaði metin í 29:29 og kom svo gestunum í forystu með marki úr hraðaupphlaupi þegar um mínúta var eftir. Þorsteinn Leó Gunnarsson jafnaði svo metin fyrir heimamenn með síðasta marki leiksins.
Þorsteinn Leó og Árni Bragi Eyjólfsson voru markahæstir heimamanna með sjö mörk hvor en Ólafur Brim Stefánsson átti stórleik fyrir gestina, skoraði 11 mörk. Næstur hjá Gróttu var Birgir Steinn Jónsson með níu mörk.
Stigið er það fyrsta sem Grótta fær á tímabilinu eftir þrjú töp í fyrstu leikjum tímabilsins. Afturelding hefur nú gert tvö jafntefli og unnið einn í fyrstu fjóru umferðunum.