Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, segir lið SKA Minsk vera í öðrum gæðaflokki en lið FH og það hafi sýnt sig þegar liðin mættust í Kaplakrika í fyrri leik liðanna í annarri umferð Evrópubikars karla í handknattleik.
„Það verður bara að segja það eins og er að þetta er frábært lið. Á köflum vorum við teknir í ákveðna kennslustund. Að því sögðu þá er ég ekkert rosalega óánægður með liðið mitt. Við spiluðum góðan sóknarleik og vorum þolinmóðir. En stundum mætir maður ofjörlum sínum og það var tilfellið í dag,“ sagði Sigursteinn í samtali við mbl.is í Kaplakrika en síðari leikur liðanna fer fram í Hvíta-Rússlandi.
Erfitt var fyrir FH-inga að verjast liði Minsk eins og markaskorið sýnir. Góð breytt leikmanna er í liði Minsk og vopnabúr þeirra í sókninni fjölbreytt. „Þarna er líkamlegt atgervi úr annarri hillu. Eitthvað sem við erum ekki vanir að eiga við hér heima. Svo var margt annað eins og tímasetningar og hvernig allar árásir hjá þeim áttu sér stað. Þetta var bara frábært lið.“
Egill Magnússon náði sér vel á strik og skoraði 10 mörk, flest með skotum fyrir utan. „Þá komum við aftur að því að við vorum þolinmóðir í sókninni og biðum eftir réttu skotfærunum. Við vorum þá búnir að hreyfa þá virkilega vel sem gerði það að verkum að Egill var með tíu mörk og Gytis [Smantauskas] skoraði sex sem er líka skref upp á við frá því sem verið hefur.“
Íslensk lið tóku lítið sem ekkert þátt í Evrópukeppnum í nokkur ár vegna kostnaðarins sem þátttökunni fylgir. Hversu mikilvægt er fyrir íslensk lið að vera með?
„Þarna fengum við í HF til dæmis tækifæri til að bera okkur saman við algert klassalið. Að sjálfsögðu munum við greina leikinn og allt það. En maður sér strax að líkamlegt ástand er allt annað hjá Minsk. Leikmenn fá ýmislegt til að hugsa um þegar þeir sjá svona andstæðinga. Menn geta bætt við sig í lyftingum og fleiru auk þess að velta fyrir sér hvernig þeir hugsa um sig vegna þess að andstæðingurinn var í öðrum gæðaflokki,“ sagði Sigursteinn Arndal ennfremur.