Fimm íslensk lið voru á ferðinni í Evrópubikarnum í handknattleik um helgina og eru tvö þeirra komin áfram, karlalið Hauka og kvennalið KA/Þórs.
Haukar eru komnir áfram í 3. umferð eftir 62:39-samanlagðan sigur á kýpverska liðinu Parnassos Strovolu.
Báðir leikir einvígisins fóru fram ytra um helgina. Haukar unnu fyrri leikinn á laugardag, 25:14, og seinni leikinn í gær 37:25.
Á Selfossi tókst heimamönnum að ná í 31:31-jafntefli gegn Jerusalem Ormoz frá Slóveníu eftir að hafa verið 28:31 undir þegar rúm mínúta var eftir í fyrri leik liðanna. Selfoss skoraði þrjú síðustu mörkin með mögnuðum endaspretti og juku möguleikana sína fyrir seinni leikinn til muna, en hann fer fram í Slóveníu næsta laugardag.
Staðan hjá FH er töluvert verri eftir 29:37-skell gegn Minsk frá Hvíta-Rússlandi í Kaplakrika í fyrri leik einvígisins.
KA/Þór tryggði sér sæti í 2. umferð Evrópubikarsins í kvennaflokki með því að sigra Istogu frá Kósóvó í seinni leik liðanna á laugardaginn var, 37:34.
Báðir leikir einvígisins fóru fram í Kósóvó og vann KA/Þór samanlagt 63:56 eftir fjögurra marka sigur í fyrri leiknum á föstudaginn var.
Valur er hins vegar úr leik eftir tvö töp fyrir Bekament frá Serbíu, en báðir leikirnir fóru fram ytra. Valur tapaði fyrri leiknum með minnsta mun á laugardag, 28:29, en munurinn var sex mörk í gær, 24:30.