Danska liðið GOG, sem Viktor Gísli Hallgrímsson leikur með, og þýska liðið Magdeburg, þar sem Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon eru á mála, unnu bæði góða útisigra í 1. umferð riðlakeppni Evrópudeildarinnar í handknattleik karla í dag.
Viktor Gísli átti góðan leik í marki GOG þegar liðið heimsótti rússneska liðið Chekovskie Medvedi. Varði hann tíu af því 31. skoti sem hann fékk á sig, sem gerir rúmlega 32 prósent markvörslu.
Liðið vann að lokum öruggan 39:32 sigur í B-riðli keppninnar.
Þá skoraði Gísli Þorgeir fjögur mörk fyrir Magdeburg í góðum 31:27 sigri gegn slóvenska liðinu Gorenje Velenje í C-riðli keppninnar.
Hann var næstmarkahæsti leikmaður Magdeburg í leiknum á eftir Lukas Mertens, sem skoraði sex mörk.
Ómar Ingi var ekki í leikmannahópi Magdeburg í dag.