Handknattleiksmaðurinn Teitur Örn Einarsson er genginn í raðir þýska stórliðsins Flensburg. Skrifar hann undir samning til loka yfirstandandi tímabils.
Teitur Örn, sem leikur sem hægri skytta, komst um helgina að samkomulagi við sænska félagið Kristianstad um að rifta samningi sínum og bárust strax fregnir af því að hinn 23 ára gamli Selfyssingur væri á leið til Flensburg.
Félagið hefur nú staðfest tíðindin og er þjálfari þess, Maik Machulla, hæstánægður með nýjasta leikmann liðsins.
„Með Teiti erum við að fá alvöru víking til okkar. Í síðustu viku áttum við góðar samræður við Kristianstad og Teit og komumst mjög fljótt að samkomulagi. Fyrst um sinn mun hann geta hjálpað okkur með góðum köstum sínum en fyrst og fremst sprengikrafti sínum, sérstaklega í sókn.
Í síðustu leikjum varð það ljóst að okkur vantaði pressu og meiri markhættu hægra megin í sókninni og nú er það okkar að láta Teit aðlagast liðinu okkar, leikskipulagi og hugmyndafræði eins fljótt og auðið er. Við erum allir mjög spenntir,“ sagði Machulla í samtali við heimasíðu Flensburg.