Starri Friðriksson skoraði sjö mörk fyrir Stjörnuna þegar liðið vann fimm marka sigur gegn Selfossi í úrvalsdeild karla i handknattleik, Olísdeildinni, í Set-höllinni á Selfossi í kvöld.
Leiknum lauk með 25:20-sigri Stjörnunnar en staðan var jöfn í hálfleik, 11:11.
Selfoss náði mest fimm marka forskoti í fyrri hálfleik, 10:5, en Garðbæingum tókst að koma til baka og jafna metin undir lok fyrri hálfleiks.
Garðbæingar sigu fram úr í upphafi síðari hálfleiks og leiddu með fjórum mörkum 22:18, þegar tíu mínútur voru til leiksloka og Selfyssingum tókst ekki að snúa leiknum sér í vil á lokamínútunum.
Leó Snær Pétursson skoraði sex mörk fyrir Stjörnuna og Adam Thorstensen varði tólf skot í markinu, þar af eitt vítakast. Einar Sverrisson var markahæstur í liði Selfyssinga með sjö mörk.
Stjarnan fer með sigrinum upp í 8 stig og jafnar Valsmenn að stigum í efsta sæti deildarinnar. Selfoss er hins vegar í miklum vandræðum í níunda sætinu með 2 stig.