Þórður Tandri Ágústsson, leikmaður Stjörnunnar, fékk rauða spjaldið eftir aðeins tólf mínútur í leik Selfoss og Stjörnunnar á Selfossi í kvöld.
Það sem er öllu merkilegra er að Þórður fékk ekki beint rautt spjald heldur fékk hann þrívegis tveggja mínútna brottvísanir.
Leikurinn stendur nú yfir. Þórður mætti til leiks af krafti á Selfossi í kvöld og fékk áminningu í fyrstu sókn Selfyssinga í leiknum. Fyrstu brottvísun fékk hann á 4. mínútu og aðra strax á 6. mínútu eða þegar hann var nýkominn inn á aftur. Á 12. mínútu fékk hann þriðju brottvísunina og þar af leiðandi rautt spjald.
Þórður var því rekinn þrívegis af velli í kælingu á átta mínútum því í fjórar mínútur af þessum tólf var hann utan vallar.
Því má velta fyrir sér hvort einhver leikmaður í sögu Íslandsmótsins hafi verið jafn snöggur að fá þrjár brottvísanir í efstu deild.
Fréttin er byggð á beinni lýsingu BH staz á vefsíðu HSÍ.