Stekkur beint út í djúpu laugina í Þýskalandi

Teitur Örn Einarsson.
Teitur Örn Einarsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er fyrst og fremst þakklátur fyrir þetta tækifæri og þetta er draumur að verða að veruleika ef svo má segja,“ sagði handknattleiksmaðurinn Teitur Örn Einarsson, leikmaður Flensburg í Þýskalandi, í samtali við Morgunblaðið.

Selfyssingurinn, sem er 23 ára gamall, gekk til liðs við þýska stórveldið í vikunni en Flensburg hafnaði í öðru sæti þýsku 1. deildarinnar á síðustu leiktíð með 68 stig, líkt og Þýskalandsmeistarar Kiel, en Kiel stóð betur að vígi þegar kom að innbyrðisviðureignum liðanna.

Hann er uppalinn hjá Selfossi en gekk til liðs við sænska úrvalsdeildarfélagið Kristianstad sumarið 2018 og hefur verið lykilmaður hjá félaginu undanfarin tímabil.

„Hlutirnir hafa gerst ansi hratt síðustu daga og þetta kom til eftir að ein af hægri skyttum Flensburg meiddist. Báðar hægri skytturnar þeirra eru frá vegna meiðsla eins og staðan er í dag og ég heyrði fyrst af áhuga Flensburg á miðvikudaginn í síðustu viku þegar forráðamenn félagsins höfðu samband við umboðsmann minn. Ég fór í læknisskoðun á sunnudaginn síðasta og skrifaði svo undir samning við félagið að henni lokinni.

Um leið og ég heyrði af áhuga Flensburg varð ég mjög spenntur og setti mig í samband við forráðamenn Kristianstad. Þeim fannst þetta frábært tækifæri fyrir mig og voru staðráðnir í að standa ekki í vegi fyrir mér enda ekki á hverjum degi sem maður fær svona tækifæri. Félagaskiptin gengu mjög vel og þetta hefur gengið ótrúlega vel og hratt fyrir sig allt saman.

Ég kom til félagsins ungur að árum og Kristianstad var mitt fyrsta atvinnumannafélag. Ég er búinn að vera þarna í þrjú ár og ég hef lært mjög mikið, bæði handboltalega séð og líka sem manneskja. Ég hef líka kynnst fullt af frábærum Íslendingum sem búa í þessu litla bæjarfélagi sem Kristianstad er. Heilt yfir hafa þetta verið frábær þrjú ár í Svíþjóð og ég er mjög þakklátur fyrir tíma minn þarna,“ sagði Teitur.

Viðtalið við Teit í heild sinni er að finna í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert