Jón Heiðar Sigurðsson var ekki hressasti maðurinn á Akureyri í dag. Hinn stórskemmtilegi fyrirliði Olísdeildar liðs KA í handbolta gaf sér tíma í stutt spjall eftir slæmt tap KA gegn Val. Leiknum lauk 35:26 en Valur var mest þrettán mörkum yfir í leiknum.
Sæll Jón Heiðar. Það var mikil eftirvænting fyrir þennan leik og maður bjóst við spennutrylli. Það gekk ekki eftir og þið voruð langt frá ykkar besta.
„Þetta var klárlega leikur sem búið var að merkja við á dagatalinu fyrir tímabilið. Valsmenn slógu okkur út í úrslitakeppninni í sumar og eru ríkjandi meistarar þannig að við vorum æstir í að fá góðan og skemmtilegan leik. Það átti alla vega að vera þannig. Það var góður fílingur fyrir leik en það þarf engan eðlisfræðing til að átta sig á því að þetta gekk ekki vel upp hjá okkur. Við vorum bara jarðaðir.“
Björgvin Páll var að verja fáránlega vel en það eitt útskýrir ekki þennan skell.
„Vörnin hjá Val truflaði okkar sóknarleik mikið og þeir notuðu Einar Þorstein vel. Annars var bara óþarfi að missa þá svona langt frá okkur, staðan fór úr 2:4 í 4:15 á augabragði. Við fórum þá illa með dauðafæri og þá kannski minnkar sjálfstraustið og þá verður margt erfiðara sem venjulega er auðvelt.“
Jón Heiðar kom svo með hálfgerða yfirlýsingu fyrir hönd liðsins.
„Blessunarlega er næsti leikur strax á föstudaginn og þá spilum við gegn FH á útivelli. Ég get lofað því að það verður hasar í þeim leik og við verðum klárir í hann. Það er ótrúlegt að miðað við það sem gekk á hjá okkur í dag þá voru 5-600 áhorfendur sem hvöttu okkur og klöppuðu allan leikinn. Við skuldum þeim og þjálfurum okkar betri frammistöðu. Það er skammarlegt að bjóða fólki upp á þetta á sunnudagssíðdegi í KA-heimilinu. Við ætlum okkur miklu betri hluti en þetta og frammistaðan í dag er ekki eitthvað sem við viljum standa fyrir. Fyrir hönd liðsins bið ég okkar stuðningsmenn afsökunar. Ég vona að þeir hafi trú á okkur því við höfum hana. Mætið endilega á næsta heimaleik þar sem við munum sýna betri frammistöðu.“
Það voru alveg bjartir punktar hjá ykkur í leiknum og ungu strákarnir sem voru að spila á lokakaflanum sýndu að þeir kunna þetta alveg.
„Já, þeir voru bara helvíti flottir. Það var einmitt rætt áðan inni í klefa að við hinir, sem eru búnir að vera í þessu miklu lengur, þurfum bara að fylgja þeim. Ef þeir ætla að sýna þessa frammistöðu þá verðum við bara á bekknum áfram. Þetta er því spark í rassgatið fyrir okkur hina því ungu strákarnir gera tilkall til að spila meira á meðan við hinir erum ekki að skila okkar“ sagði hinn magnaði mælskusnillingur að lokum.