ÍBV er komið í þriðju umferð Evrópubikars kvenna í handknattleik eftir æsispennandi einvígi við PAOK frá Grikklandi en liðin léku báða leiki sína á heimavelli PAOK í gær og dag.
PAOK vann fyrri leik liðanna í gær, 29:24, og stóð því vel að vígi fyrir seinni leikinn í dag en hann fór eins og sá fyrri fram í Þessaloníku á Norður-Grikklandi.
Staðan um miðjan fyrri hálfleik í dag var 8:7 fyrir PAOK, og Grikkirnir því sex mörkum yfir samanlagt, en þá tók ÍBV völdin á vellinum, skoraði níu mörk gegn þremur seinni hluta hálfleiksins og fór inn í leikhléið með sex marka forskot, 17:11. Þar með var ÍBV einu marki yfir samanlagt.
Eyjakonur voru síðan með fjögurra til sjö marka forystu allan seinni hálfleikinn og dönsuðu því í kringum fimm marka muninn sem þær þurftu að vinna með að lágmarki til að fara áfram.
Eftir að PAOK minnkaði muninn í 27:22 þremur mínútum fyrir leikslok skoruðu Sunna Jónsdóttir og Harpa Valey Gylfadóttir fyrir ÍBV og staðan var 29:22 þegar rúm mínúta var eftir. Grikkirnir náðu ekki að svara því, lokatölur 29:22 fyrir ÍBV og samanlagt því 53:51.
Sunna Jónsdóttir skoraði 8 mörk fyrir ÍBV í dag, Elísa Elíasdóttir 7, Karolina Olszowa 6, Harpa Valey Gylfadóttir 4, Lina Cardell 2 og Marija Jovanovic 2.