Framarar halda áfram góðri byrjun sinni á úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, og unnu útisigur á Víkingum í Víkinni í kvöld, 27:25, en þurftu að hafa talsvert fyrir honum.
Þeir eru komnir með átta stig og hafa unnið fjóra af fyrstu fimm leikjum sínum. Nýliðar Víkings hafa hinsvegar tapað fyrstu fimm leikjum sínum.
Fram komst í 5:1 en Víkingar tóku þá vel við sér og jöfnuðu metin í 5:5. Aftur stungu Framarar tímabundið af þegar þeir komust í 14:7 eftir 19 mínútna leik en Víkingar minnkuðu muninn í 14:10 fyrir hlé.
Þrjú til fimm mörk skildu liðin lengst af í seinni hálfleiknum en Víkingar gáfu sig ekki og minnkuðu muninn í 24:23 þegar sjö mínútur voru eftir. Aftur var eins marks munur, 25:24, en þá skoruðu Þorsteinn Gauti Hjálmarsson og Vilhelm Poulsen fyrir Fram, 27:24. Það var of mikið fyrir Víkinga.
Mörk Víkings: Jóhann Reynir Gunnlaugsson 7/4, Jóhannes Berg Andrason 6, Styrmir Sigurðarson 4, Hjalti Már Hjaltason 3, Guðjón Ágústsson 2, Arnar Huginn Ingason 1, Benedikt Elvar Skarphéðinsson 1, Arnar Steinn Arnarsson 1.
Varin skot: Jovan Kukobat 14/1.
Mörk Fram: Vilhelm Poulsen 6/3, Þorsteinn Gauti Hjálmarsson 5, Kristófer Dagur Sigurðsson 4/1, Breki Dagsson 3, Stefán Darri Þórsson 3, Rógvi Chrisiansen 3, Þorvaldur Tryggvason 1, Kristófer Andri Daðason 1, Ólafur Jóhann Magnússon 1.
Varin skot: Lárus Helgi Ólafsson 17, Valtýr Már Hákonarson 1.