Selfyssingurinn Ómar Ingi Magnússon heldur áfram að leika frábærlega fyrir þýska félagið Magdeburg. Í dag kom hann að tólf mörkum í fræknum 29:27 útisigri gegn ríkjandi meisturum Kiel í toppslag þýsku 1. deildarinnar í handknattleik karla.
Ómar Ingi fór fyrir sóknarleik Magdeburg er hann skoraði sex mörk og lagði upp önnur sex fyrir liðsfélaga sína.
Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði tvö mörk fyrir Magdeburg gegn sínum gömlu félögum.
Magdeburg hefur hafið tímabilið stórkostlega enda á toppi þýsku deildarinnar með fullt hús stiga, 16 stig, að loknum átta umferðum.
Liðið hefur raunar unnið hvern einasta leik sinn á tímabilinu í öllum keppnum, þar á meðal Barcelona og Aalborg í heimsbikar félagsliða, þar sem liðið varð heimsmeistari.
Kiel tapaði í dag sínum fyrsta leik í deildinni á tímabilinu og er í 3. sæti með 12 stig að loknum átta leikjum. Füchse Berlín er svo í öðru sæti með 13 stig en á leik til góða á Magdeburg.