Óskar Ólafsson var markahæsti leikmaður norska liðsins Drammen í dag þegar það tryggði sér sæti í þriðju umferð Evrópubikars karla í handknattleik.
Drammen tók á móti H71 Hoyvík frá Færeyjum eftir að hafa unnið nauman sigur í fyrri viðureign liðanna í Þórshöfn, 24:22, um síðustu helgi. Norska liðið var mun sterkari aðilinn í dag og sigraði 32:20 eftir að staðan var 15.9 í hálfleik. Óskar var markahæstur með 6 mörk.
Dregið er til þriðju umferðarinnar á morgun og ásamt Drammen verða m.a. Haukar í hattinum í þeim drætti.