Skoraði ellefu mörk í Minden

Bjarki Már Elísson skorar og skorar fyrir Lemgo.
Bjarki Már Elísson skorar og skorar fyrir Lemgo. mbl.is/Unnur Karen

Bjarki Már Elísson landsliðsmaður í handknattleik var enn og aftur í aðalhlutverki hjá Lemgo í dag þegar lið hans vann góðan útisigur á Minden, 32:29, í þýsku 1. deildinni.

Bjarki, sem skoraði sextán mörk í bikarleik á dögunum, skoraði ellefu mörk í leiknum í Minden í dag, aðeins eitt þeirra af vítalínunni. Lemgo var undir í hálfleik, 15:11, gegn neðsta liði deildarinnar en Minden hefur enn ekki fengið eitt einasta stig í deildinni.

Lemgo er hinsvegar komið með átta stig eftir sjö leiki og er í sjötta sætinu.

Flensburg vann nauman sigur á Stuttgart, 30:29. Teitur Örn Einarsson er nýkominn til Flensburg frá Kristianstad en kom lítið við sögu og skoraði ekki. Andri Már Rúnarson skoraði eitt mark fyrir Stuttgart en Viggó Kristjánsson er enn frá vegna meiðsla.

Ýmir Örn Gíslason var að vanda í varnarhlutverki hjá Rhein-Neckar Löwen en skoraði ekki þegar liðið vann Wetzlar á útivelli, 30:29.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert