Naumur sigur Aftureldingar

Blær Hinriksson brýst í gegnum vörn HK í Kórnum í …
Blær Hinriksson brýst í gegnum vörn HK í Kórnum í kvöld. mbl.is/Unnur Karen

Afturelding sigraði HK 30:28 í Olís-deild karla í handknattleik í kvöld eftir spennandi leik í Kórnum í Kópavogi. 

Staðan var 28:28 þegar tæpar tvær mínútur voru eftir. Guðmundur Bragi Ástþórsson kom þá Aftureldingu yfir á ný með fjórða marki sínum í leiknum. Sókn HK rann út í sandinn þegar rúm hálf mínúta var eftir. Mosfellingar skoruðu síðasta markið þegar um tíu sekúndur voru eftir og tryggðu sér sigurinn en þar var að verki Þorsteinn Leó Gunnarsson en hann skoraði tvö af síðustu þremur mörkum liðsins. 

Þorsteinn Leó var markahæstur hjá Aftureldingu ásamt Árna Braga Eyjólfssyni en þeir voru með sjö mörk hvor um sig. 

Kristján Ottó Hjálmsson skoraði einnig sjö mörk fyrir HK í aðeins átta skottilraunum. HK var um tíma fimm mörkum undir í síðari hálfleik 19:24 og 20:25 en liðinu tókst þó að jafna um tíu mínútum síðar. HK náði hins vegar ekki að komast yfir á lokakaflanum. 

HK þarf því enn að bíða eftir fyrsta stiginu í vetur en Víkingur er einnig án stiga. Afturelding er með sex stig eftir fimm leiki í 6. sæti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert