Kristján Örn Kristjánsson átti stórleik í liði Aix frá Frakklandi þegar það laut í lægra haldi gegn Gísla Þorgeiri Kristjánssyni, Ómari Inga Magnússyni og félögum í þýska liðinu Magdeburg í C-riðli Evrópudeildarinnar í dag.
Kristján Örn var markahæstur í liði Aix þegar hann skoraði sex mörk og lagði hann svo upp önnur fjögur fyrir liðsfélaga sína í Aix.
Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði tvö mörk og lagði einnig upp tvö í sterkum 31:27 sigri.
Ómar Ingi komst ekki á blað í leiknum í dag. Magdeburg hefur unnið alla leiki sína í öllum keppnum á tímabilinu til þessa.
Fleiri Íslendingar voru í eldlínunni í keppninni í kvöld.
Viktor Gísli Hallgrímsson varði átta skot í marki GOG frá Danmörku í 46:30 risasigri liðsins gegn finnska liðinu Cocks í B-riðlinum.
Þá gerði svissneska liðið Kadetten, sem Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfar, 28:28 jafntefli í hörkuleik gegn Pelister frá Norður-Makedóníu í D-riðlinum.