Fram vann 29:25 útisigur á nýliðum Aftureldingar í úrvalsdeild kvenna í handknattleik, Olísdeildinni, með herkjum í kvöld.
Gestirnir úr Safamýri voru með undirtökin í fyrri hálfleik og leiddu að honum loknum, 14:11.
Mosfellingar byrjuðu hins vegar síðari hálfleikinn frábærlega með því að skora þrjú mörk í röð og jafna þar með metin í 14:14.
Fram náði aftur góðri stjórn á leiknum og komst mest í þriggja marka forystu, 20:17, þegar síðari hálfleikur var tæplega hálfnaður.
Eftir það tók við frábær kafli hjá heimakonum sem náðu að jafna metin í 21:21.
Nær komust þær þó ekki því góður lokakafli Framkvenna sá til þess að þær unnu að lokum góðan fjögurra marka sigur.
Markvarsla var ekki í forgrunni í kvöld enda varði Hafdís Renötudóttir og Írena Björk Ómarsdóttir vörðu aðeins sitt hvort skotið í marki Fram og Eva Dís Sigurðardóttir í marki Aftureldingar varði sex skot.
Þó er rétt að geta þess að fjöldi skota í leiknum fóru framhjá eða yfir.
Katrín Helga Davíðsdóttir skoraði níu mörk fyrir Aftureldingu og skammt undan var Ólöf Marín Hlynsdóttir með átta mörk.
Emma Olsson og Ragnheiður Júlíusdóttir voru markahæstar í liði Fram með sjö mörk hvor.
Fram er áfram eitt á toppi deildarinnar með 9 stig að loknum fimm leikjum.
Afturelding er svo áfram stigalaust á botni deildarinnar, einnig eftir fimm leiki.