Janus Daði Smárason, landsliðsmaður Íslands í handknattleik og Göppingen í Þýskalandi, er búinn að semja við norska úrvalsdeildarfélagsins Kolstad. Það er norski miðillinn TV2 sem greinir frá þessu.
Samningur Janusar Daða í Þýskalandi rennur út næsta sumar en félagið tilkynnti á dögunum að leikstjórnandinn yrði ekki áfram í herbúðum þýska liðsins.
Forráðamenn Kolstad ætla sér að byggja upp evrópskt stórveldi í handboltanum og er koma Janusar Daða hluti af því.
Norska vinstri skyttan Sander Sagosen mun einnig ganga til liðs við félagið þegar samningur hans við Kiel í Þýskalandi rennur út sumar 2023 en hann er af mörgum talinn besti leikmaður í heiminum í dag.
Landsliðsmaðurinn Sigvaldi Björn Guðjónsson hefur einnig verið orðaður við Kolstad að undanförnu en samningur hans við Kielce í Póllandi rennur út næsta sumar.
Janus Daði, sem er 26 ára gamall, hefur leikið með Göppingen frá því á síðasta ári en hann hefur verið óheppinn með meiðsli í Þýskalandi.
Hann er uppalinn hjá Selfossi en hefur einnig leikið með Haukum hér á landi. Þá lék hann með Aalborg í Danmörku við góðan orðstír frá 2017 til 2020.