Smit á Selfossi

Selfyssingar eiga að mæta Gróttu í úrvalsdeildinni á morgun.
Selfyssingar eiga að mæta Gróttu í úrvalsdeildinni á morgun. Ljósmynd/Óttar Geirsson

Handknattleiksdeild Selfoss hefur fellt niður allar æfingar hjá sér í dag, fimmtudag, eftir að kórónuveirusmit kom upp í félaginu. Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum í dag.

Selfuss U átti að mæta Haukum U í 1. deild karla í gær, Grill 66-deildinni, en leiknum var frestað vegna smits í herbúðum Selfyssinga.

Hópsmit kom upp í Fjölbrautaskóla Suðurlands, FSU, í vikunni og eru smitin innan handknattleiksdeildarinnar rakin þangað.

Karlalið Selfyssinga á að taka á móti Gróttu í Set-höllinni á Selfossi á morgun í sjöttu umferð úrvalsdeildarinnar en óvíst er hvort leikurinn muni fara fram á tilsettum tíma eftir fréttir dagsins.

„Handknattleiksdeild Selfoss fellir niður allar æfingar í dag vegna smita í félaginu hjá okkur,“ segir í tilkynningu Selfyssinga.

„Við erum að bíða eftir frekari upplýsingum frá smitrakningu og teljum því öruggast og sýna ábyrgð í því að bíða út daginn,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert