Teitur Örn Einarsson fer sannarlega vel af stað með nýja liðinu sínu, hinu þýska Flensburg, en hann átti frábæran leik í 34:27 sigri á Motor Zaporozhye í B-riðli Meistaradeildar Evrópu í handknattleik karla í kvöld.
Teitur Örn skoraði sjö mörk og lagði upp önnur tvö og var næstmarkahæstur í leiknum.
Um var að ræða fyrsta sigur Flensburg í riðlinum þar sem liðið hefur nú leikið sex leiki og er á botninum.
Í A-riðlinum mættust Meshkov Brest og Elverum. Elverum fór með sigur af hólmi, 30:27, þar sem Orri Freyr Þorkelsson var á leikskýrslu en komst ekki á blað.