HK náði jafntefli gegn Íslandsmeisturunum – Stjarnan vann ÍBV

HK-konur fagna marki á Akureyri í dag.
HK-konur fagna marki á Akureyri í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

HK náði í sterkt og óvænt stig þegar liðið gerði jafntefli gegn Íslandsmeisturum KA/Þórs á Akureyri í úrvalsdeild kvenna í handknattleik, Olísdeildinni, í dag. Á sama tíma gerði Stjarnan góða ferð til Vestmannaeyja og vann heimakonur í ÍBV. –

HK byrjaði vel og komst í 5:8 forystu í fyrri hálfleiknum. KA/Þór vann sig hins vegar vel inn í leikinn en HK leiddi þó 12:13 í leikhléi.

Í síðari hálfleik var áfram jafnræði með liðunum en seint í leiknum náði KA/Þór 24:22 forystu.

HK átti þó góðan lokakafla og náði að jafna metin, auk þess sem liðið hefði getað tryggt sér sigur í lokasókninni en hafði ekki erindi sem erfiði.

Lokatölur urðu 26:26.

Markahæstar í liði KA/Þórs voru Martha Hermannsdóttir með sex mörk og Rut Arnfjörð Jónsdóttir með fimm mörk.

Markahæstar í liði HK og í leiknum voru hins vegar Jóhanna Margrét Sigurðardóttir með átta mörk og Valgerður Ýr Þorsteinsdóttir með sjö mörk.

Í Vestmannaeyjum var jafnræði með liðunum til að byrja með en um miðjan fyrri hálfleik náði Stjarnan þriggja marka forystu, 9:6, og náðu að halda henni til loka fyrri hálfleiks.

Staðan í leikhléi því 15:12.

Eyjakonur mættur sterkar til leiks og minnkuðu muninn í 18:17.

Nær komust þær þó ekki í leiknum því frábær kafli Stjörnukvenna þar sem þær skoruðu fimm mörk gegn einu Eyjakvenna og náðu þannig mest fimm marka forystu, 23:18, fór langt með að gera út um leikinn.

ÍBV náði aðeins að laga stöðuna en Stjarnan vann að lokum góðan 26:24 sigur.

Hart tekist á í leiknum.
Hart tekist á í leiknum. Ljósmynd/Þórir Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert