Thea Imani Sturludóttir átti mjög góðan leik fyrir Val þegar liðið tók á móti Haukum í úrvalsdeild kvenna í handknattleik, Olísdeildinni, í Origo-höllinni á Hlíðarenda í fimmtu umferð deildarinnar í dag.
Leiknum lauk með 32:26-sigri Vals en Thea gerði sér lítið fyrir og skoraði sjö mörk í leiknum og var markahæst Valskvenna.
Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og Haukar leiddu með einu marki í hálfleik, 14:13. Valskonur sigu hins vegar hægt og rólega fram úr þegar leið á síðari hálfleikinn og leiddu með fjórum mörkum þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka, 24:20.
Morgan Marie Þorkelsdóttir skoraði sex mörk fyrir Val og Mariam Eradze fimm mörk. Sara Sif Helgadóttir varði átta skot í markinu og Saga Sif Gísladóttir sjö skot.
Sara Odden var markahæst í liði Hauka með sjö mörk, Ásta Björt Júlíusdóttur skoraði sex og Elín Klara Þorkelsdóttir fjögur. Annika Friðheim varði ellefu skot í markinu.
Valskonur eru með 8 stig í öðru sæti deildarinnar, stigi minna en Fram, en Valur á leik til góða á Framara. Haukar eru í þriðja sætinu með 5 stig líkt og Íslands- og bikarmeistarar KA/Þórs.