Díana Dögg Magnúsdóttir, landsliðskona í handknattleik, sýndi hvað í henni býr þegar hún mætti toppliðinu í Þýskalandi í þýsku bundesligunni í kvöld.
Lið Díönu, Sachsen Zwickau, heimsótti Bietigheim og ljóst var að það yrði erfitt verkefni. Bietigheim hefur unnið alla átta leiki sína í deildinni til þessa og vann fimmtán marka sigur 35:20. Zwickau er hins vegar í 13. og næstneðsta sæti með einn sigur í fyrstu átta leikjunum.
Díana verður tæplega sökuð um niðurstöðuna í kvöld því hún var markahæst með 6 mörk. Auk þess gaf hún þrjár stoðsendingar á liðsfélagana og vann boltann þrívegis af andstæðingum.