Skoraði átta mörk á Akureyri

Anna Þyrí Halldórsdóttir reynir skot að marki Hauka í kvöld.
Anna Þyrí Halldórsdóttir reynir skot að marki Hauka í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Rakel Sara Elvarsdóttir átti frábæran leik fyrir KA/Þór þegar liðið vann átta marka sigur gegn Haukum í úrvalsdeild kvenna í handknattleik, Olísdeildinni, í KA-heimilinu á Akureyri í frestuðum leik úr þriðju umferð deildarinnar.

Leiknum lauk með 34:26-sigri KA/Þórs en Rakel Sara gerði sér lítið fyrir og skoraði átta mörk.

Akureyringar voru með frumkvæðið framan af og voru með þriggja marka forskot í hálfleik, 17:14. Akureyringar juku forskot sitt hægt og rólega í síðari hálfleik og unnu öruggan sigur.

Ásdís Guðmundsdóttir skoraði sjö mörk fyrir KA/Þór og þær Martha Hermannsdóttir og Rut Jónsdóttir fjögur mörk hvor. Matea Lonac átti stórleik í marki Akureyringa, varði 14 skot og var með 41% markvörslu.

Berta Rut Harðardóttir var atkvæðamest í liði Hauka með sex mörk og þær Sara Odden, Ragnheiður Ragnarsdóttir, Natasja Hammer og Birta Lind Jóhannesdóttir skoruðu þrjú mörk hver.

KA/Þór fer með sigrinum upp fyrir Hauka í þriðja sæti deildarinnar í 7 stig en Haukar eru í fjórða sætinu með 5 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert