Það var keyrsla, keyrsla og keyrsla

Stella Sigurðardóttir fylgist með Hildigunni Einarsdóttur fara í gegn í …
Stella Sigurðardóttir fylgist með Hildigunni Einarsdóttur fara í gegn í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

„Varnarleikurinn og hraðaupphlaupin í leiknum voru í lagi en uppstilltur sóknarleikur var erfiður hjá okkur og það varð okkur að falli,“ sagði Stella Sigurðardóttir, leikmaður Fram, í samtali við mbl.is eftir naumt 24:25-tap á heimavelli gegn Val í toppslag Olísdeildarinnar í handbolta.

Valskonur voru yfir stærstan hluta leiks og Stella viðurkennir að það hafi verið erfitt að elta Valsliðið. „Það var mjög erfitt. Gústi var líka mikið að skipta á meðan við vorum meira að spila á sama liði. Við vorum samt ekki þreyttar. Þetta var örugglega mjög góður leikur fyrir áhorfendur og mikil keyrsla. Þetta datt ekki okkar megin í dag.“

Leikurinn var stórskemmtilegur og vel spilaður að mestu leyti. Þrátt fyrir svekkjandi tap, var Stella sátt með leikurinn hafi boðið upp á skemmtun.

„Ég hugsaði eftir fyrstu tíu mínúturnar, bara vá, það var keyrsla, keyrsla og keyrsla og varla stoppað. Það var gott að þessi leikur var sýndur og á þessum tíma. Það var örugglega fullt af fólki sem komst ekki á völlinn sem var að horfa heima. Það voru tvö góð lið sem mættust í dag, en því miður datt það ekki okkar megin.“

Fram fékk fín tækifæri til að jafna metin í blálokin, en það tókst ekki. „Mér fannst við fá kúkamörk á okkur í lokin, í vörnina og inn t.d. Heppnin var ekki með okkur í liði í dag,“ sagði Stella.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert