Valskonur unnu æsispennandi toppslag

Ragnheiður Júlíusdóttir skýtur að marki í dag.
Ragnheiður Júlíusdóttir skýtur að marki í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Valur er enn með fullt hús stiga á toppi Olísdeildar kvenna í handbolta eftir 25:24-sigur á Fram á útivelli í æsispennandi leik í dag.

Valskonur byrjuðu af krafti og komust í 4:1 í upphafi leiks. Þá tók við góður kafli hjá Fram sem jafnaði í 5:5. Næstu mínútur voru jafnar en um miðbik fyrri hálfleiks kom aftur góður kafli hjá Val og staðan 11:8 þegar Stefán Arnarson, þjálfari Fram, tók leikhlé.

Liðin skiptust á fínum köflum eftir það, en Fram tókst að jafna með góðum endaspretti í hálfleiknum og var staðan í leikhléi því hnífjöfn, 14:14.

Sara Sif Helgadóttir varði vel í marki Vals í hálfleiknum og Thea Imani Sturludóttir var sterk í bæði vörn og sókn. Þá skoraði Morgan Marie Þorkelsdóttir falleg mörk. Hjá Fram var Ragnheiður Júlíusdóttir og Þórey Rósa Stefánsdóttir sterkar og Hafdís Renötudóttir í markinu varð betri eftir því sem leið á hálfleikinn.

Stella Sigurðardóttir skoraði fyrsta mark seinni hálfleiks og kom Fram í leiðinni yfir í fyrsta skipti í leiknum, 15:14. Valskonur komu þá með góðan kafla á móti og var staðan 22:20, Val í vil, þegar tíu mínútur voru eftir.

Valskonur komust í kjölfarið í 25:21 þegar fimm mínútur voru eftir. Þá bitu Framkonur heldur betur frá sér því staðan var orðin 25:24 þegar ein mínúta var eftir. Fram fékk tækifæri til að jafna, en það gekk ekki eftir og Valskonur fögnuðu sætum sigri.

Mariam Eradze og Morgan Marie Þorkelsdóttir skoruðu fimm mörk hvor fyrir Val og Ragnheiður Júlíusdóttir og Þórey Rósa Stefánsdóttir gerðu slíkt hið sama fyrir Fram. 

Saga Sif Gísladóttir (13) og Sara Sif Helgadóttir (11) áttu báðar góðan leik í markinu hjá Val, en þær skiptu með sér hálfleikum. Hafdís Renötudóttir varði 15 skot hjá Fram, þar af tvö víti. 

Fram 24:25 Valur opna loka
60. mín. Saga Sif Gísladóttir (Valur) varði skot Karen með gegnumbrot en Saga er mætt og ver!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert