Egyptinn Hassan Moustafa var endurkjörinn forseti Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF, á þingi þess á laugardaginn og er þar með að hefja sitt sjötta fjögurra ára tímabil sem æðsti maður íþróttarinnar í heiminum.
Moustafa var fyrst kjörinn forseti IHF í nóvember árið 2000, eða fyrir 21 ári síðan. Hann var endurkjörinn eftir kosningar árin 2004 og 2009 en hefur nú þrisvar í röð, 2013, 2017 og 2021, verið endurkjörinn án mótframboðs.
Moustafa er 77 ára gamall og var fremsti handknattleiksmaður Egypta á sínum tíma en hann lék með landsliði þjóðar sinnar í fimmtán ár. Hann gerðist síðan þjálfari og var um skeið alþjóðlegur handknattleiksdómari. Þá var Moustafa formaður egypska handknattleikssambandsins frá 1984 til 1992 og aftur frá 1996 til 2008. Hann er með doktorsgráðu í íþróttastjórnum frá háskólanum í Leipzig í þáverandi Austur-Þýskalandi.
Æðstu stjórnendur IHF við hlið Moustafa eru varaforsetinn Joël Deplanque frá Frakklandi, gjaldkerinn Anna Rapp frá Svíþjóð og þau Narcisa Lecusanu frá Rúmeníu og Frantisek Taborsky frá Tékklandi sem sitja með þeim í framkvæmdastjórninni. Þær Anna Rapp og Narcisa Lecusanu eru fyrrverandi landsliðskonur Svíþjóðar og Rúmeníu. Rapp varð fyrir fjórum árum fyrsta konan sem var kjörin í framkvæmdastjórn IHF.