Aron Pálmarsson, landsliðsmaður í handknattleik, er á sínu fyrsta tímabili hjá Álaborg. Aron hefur víðtæka reynslu af handboltanum í Evrópu og hefur getað valið úr stórliðum á sínum ferli. Áður lék hann með Kiel, Veszprém og Barcelona í atvinnumennskunni. Hann er ánægður með það sem hann hefur séð hjá Álaborg hingað til.
„Mér líst mjög vel á mig hjá Álaborg. Mér finnst félagið og aðstaðan vera upp á 10 en það kemur mér reyndar ekkert á óvart. Þarna er gríðarleg stemning fyrir handbolta. Það er stóri munurinn sem maður finnur. Daninn hefur mikinn áhuga á þessu og það er eitt af því sem maður er að sækja í. Fullar hallir af fólki og umgjörðin á leikdegi er eins og maður kannaðist við frá Þýskalandi. Ég hafði saknað þess svolítið,“ sagði Aron þegar Morgunblaðið spjallaði við hann á landsliðsæfingu.
Danir tefla ekki einungis fram firnasterkum landsliðum hjá báðum kynjum heldur eru dönsku deildirnar einnig sterkar.
„Þetta er frábær handbolti. Það kunna allir handbolta í Danmörku. Ef maður myndi bera þetta saman við Þýskaland þá er alltaf talað um að þar séu menn líkamlega sterkari en í Danmörku. Fimm til sex bestu liðin í Danmörku eru þrælgóð og í neðri hlutanum eru einnig lið sem eru hættuleg. Við höfum til dæmis tapað fyrir liði úr neðri hlutanum á tímabilinu og það getur allt gerst í þessum leikjum. Það er bara mjög ágætt,“ sagði Aron sem missti af nokkrum leikjum í haust vegna meiðsla.
Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.