Grótta gerði sér lítið fyrir og vann frækinn 34:32 sigur á toppliði Stjörnunnar þegar liðin mættust á Seltjarnarnesi í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í kvöld.
Gestirnir úr Garðabæ hófu leikinn mun betur og náðu sex marka forystu, 6:12, um miðjan fyrri hálfleik.
Gróttumenn náðu að laga stöðuna töluvert og minnkuðu muninn niður í 14:16 þegar skammt var eftir af fyrri hálfleiknum.
Staðan í leikhléi var hins vegar 15:18, Stjörnunni í vil.
Óhætt er að segja að heimamenn í Gróttu hafi komið af krafti inn í síðari hálfleikinn því eftir aðeins þriggja mínútna leik voru þeir búnir að jafna metin í 18:18.
Skömmu síðar komst Grótta yfir í fyrsta sinn yfir í leiknum frá því eldsnemma í fyrri hálfleik. Staðan orðin 20:19 og í hönd fór enn betri kafli þar sem Gróttumenn náðu fjögurra marka forystu, 24:20.
Grótta hélt góðu forskoti lengi vel en undir lokin hófu Stjörnumenn að velgja þeim undir uggum að nýju.
Seint í leiknum minnkaði Stjarnan muninn niður í 31:30 en að lokum reyndist Grótta hlutskarpari og hafði að lokum frábæran tveggja marka endurkomusigur.
Birgir Steinn Jónsson var markahæstur Gróttumanna með sjö mörk.
Markahæstur í leiknum var hins vegar Hafþór Már Vignisson í liði Stjörnunnar, en hann skoraði átta mörk.
Á sama tíma heimsóttu Haukar nýliða Víkings úr Reykjavík og höfðu þar afar öruggan sigur, 31:20.
Adam Haukur Baumruk var markahæstur Hauka með átta mörk úr jafnmörgum skotum.
Aron Rafn Eðvarðsson var öflugur í marki Hafnfirðinga er hann varði 11 af þeim 28 skotum sem hann fékk á sig, sem er rúmlega 39 prósent markvarsla.
Benedikt Elvar Skarphéðinsson skoraði einnig átta mörk fyrir Víking.