Langþráður sigur hjá KA

Þorsteinn Gauti Hjálmarsson hjá Fram skýtur að marki KA í …
Þorsteinn Gauti Hjálmarsson hjá Fram skýtur að marki KA í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

KA hafði betur gegn Fram í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í KA-heimilinu í kvöld.

Mikill hraði einkenndi leikinn, brottrekstrar, mistök, svakalegar brennslur og glæsimörk. KA tók snemma yfirhöndina og vann að lokum 37:33-sigur 

Eftir jafnræði í byrjun leiks, þar sem ungir markverðir liðanna fóru á kostum, þá sigu KA-menn framúr og náðu góðu forskoti. Staðan var um tíma 12:6 og 17:10. Markvarslan datt alveg niður hjá Arnóri Mána Daðasyni auk þess sem Framarar héldu boltanum illa. KA náði svo að keyra í bakið á þeim og raða inn mörkum. Í hálfleik var staðan 17:12 fyrir KA og Fram því algjörlega inni í leiknum. 

Ólafur Gústafsson byrjaði leikinn vel hjá KA og sendi þrjá bolta í netið. Þá tók Einar Rafn Eiðsson við með stoðsendingar og mörk þannig að sóknarleikur KA var eins og hann getur best orðið. Hinum megin var Færeyingurinn Rógvi Dal Christiansen aðsópsmikill á línunni og Breki Dagsson duglegur að mata hann og aðra leikmenn. Vilhelm Poulsen hafði hins vegar hægt um sig. Sá var búinn að skora tæp níu mörk að meðaltali í leik í vetur en lét sér nægja eitt í fyrri hálfleiknum. 

Í upphafi seinni hálfleiks fékk Stefán Darri Þórsson rautt spjald eftir að hafa fengið sína þriðju brottvísun. KA hélt undirtökunum áfram en Fram náði að minnka muninn í þrjú mörk 23:20 þegar enn voru tuttugu mínútur eftir en þá kom góður kafli hjá KA sem skoraði þrjú næstu mörk. KA hélt svo Fram í hæfilegri fjarlægð allt til loka og landaði loks sigri 37:33.  

Vilhelm Poulsen kom sér upp í átta mörk með góðum seinni hálfleik en landi hans Rógvi Dal var markahærri með ellefu mörk. Þorsteinn Gauti Hjálmarsson var svo með sex mörk en hann virtist geta skorað þegar honum sýndist. 

KA rúllaði vel á sínum mannskap og komust margir á blað. Ólafur Gústafsson sýndi loks hve mikilvægur hann er í sókninni og Einar Rafn og Óðinn fóru báðir hamförum. Bruno Bernat var í markinu lengstum og stóð hann fyrir sínu. Haraldur Bolli Heimisson átti skemmtilega innkomu á línuna og setti hann strax tvö mörk. 

Sigurinn kom KA í sex stig en liðið er enn í áttunda sætinu. 

KA 37:33 Fram opna loka
60. mín. Arnór Máni Daðason (Fram) varði skot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert