Ótrúleg lokamínúta í jafntefli Vals og FH

Varnarmenn FH taka hressilega á Einari Þorsteini Ólafssyni, leikmanni Vals, …
Varnarmenn FH taka hressilega á Einari Þorsteini Ólafssyni, leikmanni Vals, í kvöld. mbl.is/Unnur Karen

Íslandsmeistarar Vals og FH skildu jöfn, 29:29, í æsispennandi leik í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í Origo-höllinni á Hlíðarenda í kvöld.

Í fyrri hálfleik var FH með tögl og hagldir og komst liðið mest sex mörkum yfir í hálfleiknum, 6:11.

Valsmenn náðu að laga stöðuna áður en hálfleikurinn var úti en voru þremur mörkum undir, 11:14, í leikhléi.

Heimamenn í Val komu áræðnir til leiks í síðari hálfleik og fyrr en varði voru þeir búnir að jafna metin í 15:15.

Eftir þetta var gífurlegt jafnræði með liðunum um langt skeið en þegar aðeins fimm mínútur voru eftir af leiknum komst FH í 26:28.

Valsmenn náðu hins vegar að snúa taflinu við og komust í 29:28.

Þá fór í hönd ótrúleg atburðarás. Eftir að Tjörvi Týr Gíslason hafði skorað það sem reyndist síðasta mark Vals í leiknum fengu FH-ingar vítakast í næstu sókn.

Einar Örn Sindrason steig á vítapunktinn en Björgvin Páll Gústavsson varði.

Valsmenn fóru í sókn en töpuðu boltanum, FH-ingar fengu annað vítakast og að þessu sinni steig Ásbjörn Friðriksson á vítapunktinn en Björgvin Páll varði aftur.

FH-ingar náðu hins vegar sóknarfrákastinu, komu boltanum inn á línuna þar sem Jakob Martin Ásgeirsson fékk vítakast á lokasekúndu leiksins

Ásbjörn gerði tilraun til þess að skora í þriðja vítakasti FH á lokamínútunni og tókst það. Með því tryggði hann FH stig í sannkölluðum spennutrylli.

Benedikt Gunnar Óskarsson fór á kostum í liði Vals og skoraði alls tíu mörk og lagði upp önnur ellefu, geri aðrir betur.

Jafn markahæstir í liði FH voru þeir Ásbjörn, Jakob Martin og Egill Magnússon, allir með fimm mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert