Selfoss ekki í vandræðum með HK

Richard Sæþór Sigurðsson var markahæstur Selfyssinga í kvöld.
Richard Sæþór Sigurðsson var markahæstur Selfyssinga í kvöld. Sigfús Gunnar Guðmundsson

Selfoss gerði góða ferð í Kórinn í Kópavogi þegar liðið vann öruggan 28:23 sigur gegn HK í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í kvöld.

Selfoss náði snemma leiks tveggja marka forysty og voru heimamenn í HK að elta allar götur síðan.

Í fyrri hálfleik náði HK nokkrum sinnum að minnka muninn niður í aðeins eitt mark en komust það sem eftir lifði leiks ekki nær en það.

Staðan í hálfleik var 12:9, Selfossi í vil, og héldu þriggja marka forystunni lengi vel.

Í síðari hluta síðari hálfleiks tókst Selfyssingum mest að ná sex marka forystu, 25:19, og reyndist eftirleikurinn auðveldur.

Fimm marka sigur reyndist því niðurstaðan.

Richard Sæþór Sigurðsson var markahæstur í leiknum er hann skoraði sjö mörk fyrir Selfoss. Hergeir Grímsson liðsfélagi kom þar á eftir með sex mörk.

Markahæstir í liði HK voru Elías Björgvin Sigurðsson og Einar Bragi Aðalsteinsson, báðir með fimm mörk.

Selfoss vann þar með sinn annan sigur á tímabilinu og er áfram í 9. sæti deildarinnar á meðan HK er enn án stiga í næstneðsta sætinu, 11. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert