„Sóknarleikurinn er ekki vandamál“

Einar Jónsson á hliðarlínunni í kvöld.
Einar Jónsson á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Einar Jónsson, þjálfari Fram í handbolta karla, fór með sína menn til Akureyrar í dag til að spila gegn KA í 7. umferð Olís-deildar karla.

Lið hans fór tómhent heim þar sem KA vann leikinn 37:33. Um miðjan fyrri hálfleik tók KA gott forskot sem þeir létu aldrei af hendi. 

En hvað fannst Einari fara úrskeiðis í dag? 

„Það má segja að varnarleikur og markvarsla hafi farið með þetta hjá okkur og svo sem fleiri þættir. Fyrri hálfleikur er ekki góður og þar missum við KA frá okkur. Lárus Helgi markvörður er meiddur og var ekki með í dag. Þetta snýst mikið um samvinnu varnar og markvarðar og það var bara ekki að virka vel í dag.“ 

Það kom 5:0 kafli hjá KA um miðjan fyrri hálfleik og KA komst í 12:6. Eftir það voruð þið alltaf að elta þá. 

„Það gerði okkur í það minnsta erfitt fyrir. Þetta var bara á stuttum kafla. Ég hélt reyndar að við værum að koma til baka í seinni hálfleik og við sýndum karakter en þetta var alltaf svona næstum því og KA gaf lítið eftir og spilaði mjög vel. Við skorum 33 mörk og ég hefði þegið það fyrir leik þannig að sóknarleikurinn var ekki vandamál. Við getum slípað hann betur til en þurfum að laga vörn og markvörslu. Það er stutt liðið af mótinu og við erum búnir að fá menn inn í liðið. Þetta á eftir að slípast betur. Þetta kemur allt“ sagði Einar að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert