Einar Rafn Eiðsson var upp á sitt besta í kvöld þegar KA mætti Fram í 7. umferð Olís-deilda karla í handbolta.
KA vann leikinn 37:33 og stýrði Einar Rafn sókn KA eins og herforingi. Sjálfur lét hann sér nægja að skora sex mörg en hann átti svo urmul af stoðsendingum. Hann var að vonum ánægður með langþráðan sigur KA og mætti í viðtal eftir leik.
Síðast þegar ég tók viðtal við þig þá varstu í FH-búning, nýbúinn að tapa fyrir KA. Nú ert þú loks kominn norður til að upplifa stemninguna hjá KA og í KA-heimilinu. Þið urðuð að ná ykkur í sigur í kvöld og það tókst.
„Já, það var kominn tími til að spyrna sér upp frá botninum. Við vorum með fjögur töp í röð fyrir þennan leik og hefðum viljað fá sigur úr þeim en vorum ekki að ná fram okkar getu fannst mér. Vorum kannski að ná 40% út úr liðinu í þeim leikjum og það veit ekki á gott. Í dag þá small þetta nokkuð vel. Þó fannst mér við eiga eitthvað inni og við vorum að slaka full mikið á í lokin í stað þess að ganga bara frá þessu almennilega. En tvö stig eru tvö stig og ég er bara virkilega sáttur með þau.“
Var það ekki bara það eina sem þurfti að gerast hjá ykkur í þessum leik, að vinna?
„Jú algjörlega, eins og ég sagði. Fjórir tapleikir í röð og enginn ánægður með gengi liðsins. Þetta var því nauðsynlegt. En við verðum samt að horfa á hvað hægt er að bæta og verða betri með hverjum leik. Það er mikið eftir af mótinu og margt hægt að bæta. Við vinnum í því á hverri einustu æfingu. Þetta lið er eiginlega eins og nýtt lið þar sem margir nýir leikmenn eru komnir og aðrir farnir. Það er ekki nóg að smella saman fingrum og ætlast til að allt gangi upp frá fyrsta degi. Við þurfum að gefa þessu tíma.“
Er stemningin í KA-heimilinu eins og þig hefur dreymt um í gegn um tíðina?
„Já. Þetta er langbesta stemningin á landinu. Þetta er geðveikt hús og það þarf ekki nema 3-400 manns til að gera allt vitlaust. Þetta hjálpar mjög mikið og er eins og áttundi maðurinn.“
Og það vantaði ekkert upp á stemninguna í kvöld.
„Stuðningsmennirnir voru stórglæsilegir. Þeir mæta alltaf og þrátt fyrir dapurt gengi okkar þá létu þeir sig ekki vanta til að styðja okkur. Þeir fá stórt hrós fyrir það.“
Nú hefur aðstaðan fyrir íþróttir hjá KA verið í sviðsljósinu á síðustu dögum. Þú ert búinn að vera lengi í FH. Er mikill munur á aðstöðunni í Hafnarfirði og hjá KA?
„Það er nú bara himinn og haf þarna á milli, bæði hjá Haukum og FH. Svo er talað um að bærinn geti ekki ráðist í uppbyggingu þar sem hann eigi ekki pening og skuldi allt of mikið. Ég held að Hafnafjarðarbær skuldi svona tífalt meira en þeir fixa bara leiðir til að græja þessa hluti. FH er með endalaust af byggingum og Haukar líka. Ég held að það þurfi bara að taka upp skóflu og byrja að grafa og skrifa svo allt á bæinn“ sagði Einar Rafn léttur í lokin.