Drullufúll út í mig og strákana

Gunnar Magnússon var langt frá því að vera sáttur við …
Gunnar Magnússon var langt frá því að vera sáttur við sína menn í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Við áttum ekkert skilið úr þessum leik, Eyjamenn voru einfaldlega betri en við í kvöld. Ég er drullufúll hvernig við mætum í leikinn, fyrri hálfleikurinn er arfaslakur, fyrstu mínúturnar eru í lagi en síðan kemur kafli þar sem þeir skora úr þrettán sóknum í röð.

Þetta var allur pakkinn, það vantaði upp á markvörslu, vörnin míglak og við vorum að fá hraðaupphlaup á okkur eftir lélegan sóknarleik,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, sem var alls ekki ánægður með sitt lið, sem er mjög vel mannað en tapaði þó fyrir ÍBV 32:30 í Olísdeild karla í handbolta í kvöld.

Gestirnir gerðu sér erfitt fyrir í fyrri hálfleik og verður það að teljast fúlt fyrir þá þar sem seinni hálfleikurinn var vel leikinn af þeirra hálfu. Staðan í hálfleik var 17:13.

„Við fáum aragrúa af dauðafærum í fyrri hálfleik, við vorum sjálfum okkur verstir og komum okkur í erfiða stöðu í hálfleik. Seinni hálfleikurinn var alls ekki slakur en við gerðum okkur þetta erfitt fyrir í fyrri hálfleik. Ég er drullufúll út í mig og strákana, hvernig við mætum í þetta. Þetta var mikilvægur leikur, fjögurra stiga, eftir langa pásu. Við vorum búnir að undirbúa okkur lengi fyrir þetta og að koma ekki með betri frammistöðu í fyrri hálfleik er ekki ásættanlegt.“

Hvað var það helst sem gestirnir gerðu illa?

„Eins og ég segi þá skoruðu þeir úr þrettán sóknum í röð og við náum ekki að stoppa þá. Við náum ekki stoppi í svakalega langan tíma, þá er þetta erfitt en í seinni hálfleik fáum við mjög góða vörn og mjög góða markvörslu, við komum okkur í færi til að jafna þetta en bufferinn var lítill eftir fyrri hálfleikinn. Við fórum með færi í lokin og því fór sem fór.“

Afturelding tapaði í fyrsta leik á móti Stjörnunni og eru taplausir síðan, frammistaðan var því út úr karakter hjá strákunum að mati Gunna.

„Þetta var út úr karakter hvernig við mættum í fyrri hálfleik, það eru tveir mánuðir síðan við töpuðum fyrir Stjörnunni og því tveir mánuðir á milli tapleikja. Við komum til baka í næsta leik og höldum áfram, það er nóg eftir af þessu móti.“

Afturelding á erfitt leikjaskipulag fram að jólum, þar sem liðið spilar við KA, Val, FH, Fram, Stjörnuna og Hauka.

„Hörkuprógramm, við erum með gott lið og getum miklu betur en þetta, við ætlum okkur að sýna betri frammistöðu í næstu leikjum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert