Fyrst kvenna til þess að spila með karlaliði

Mireia Rodríguez í leik með karlaliði Albacete gegn Cabanillas um …
Mireia Rodríguez í leik með karlaliði Albacete gegn Cabanillas um síðustu helgi. AFP

Mireia Rodríguez varð á dögunum fyrsta konan á Spáni til þess að spila með karlaliði í meistaraflokki þegar hún lék með Albacete í fimmtu efstu deild þar í landi.

Rodríguez flutti til Balompié í haust með eiginmanni sínum þegar hann var fenginn til Albacete.

Hún er sjálf liðtækur leikmaður í handknattleik með reynslu úr næstefstu deild kvenna á Spáni og hugðist halda áfram iðkun sinni en rak sig á að það væri ekkert kvennalið í Balompié eða þar í grennd.

Rodríguez brá því á það ráð að spyrja þjálfara karlaliðs Albacete hvort hún mætti æfa með liðinu.

Hann samþykkti það og svæðissambandið gerði það sömuleiðis að vel ígrunduðu máli þar sem það er ekkert í reglum þess sem bannar konum að æfa og spila með karlaliðum. Spænska handknattleikssambandið gerði enga athugasemd við ákvörðun svæðissambandsins.

Rodríguez lætur í sér heyra.
Rodríguez lætur í sér heyra. AFP

Í yngri flokkum er það algengara að stúlkur æfi með piltum, en Rodríguez sjálf er ekki mikið að stressa sig á hlutunum þótt það sé gefið að karlarnir séu stærri, sterkari og þyngri en hún.

„Við erum með sömu reglur í leiknum. Ég vil skapa fordæmi fyrir aðrar konur og gefa þeim þessa hugmynd þegar þær eru í þeim aðstæðum að það er ekkert kvennalið til staðar,“ sagði Rodríguez.

Þjálfari Albacete sagði að hún hefði vissulega þurft að venjast leik karlanna en karlarnir hefðu líka þurft að venjast leik hennar þar sem Rodríguez væri miklu sneggri en karlarnir, sem gæfi liðinu aukna vídd í sóknarleiknum.

Hún skoraði eitt mark í 31:26-sigri Albacete gegn Cabanillas um síðustu helgi.

Leikmenn karlaliðs Albacete, þar á meðal Rodríguez önnur í fremstu …
Leikmenn karlaliðs Albacete, þar á meðal Rodríguez önnur í fremstu röð frá vinstri, stilla sér upp fyrir liðsmynd. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert