Meistararnir fyrstir til að vinna Val

Hart tekist á í leiknum í dag.
Hart tekist á í leiknum í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Íslandsmeistarar KA/Þórs urðu í dag fyrsta liðið til að vinna Val í Olísdeild kvenna í handbolta. Urðu lokatölur á Hlíðarenda 28:26, KA/Þór í vil, en gestirnir frá Akureyri skoruðu fjögur síðustu mörkin.

KA/Þór byrjaði betur og komst í 6:3 snemma leiks. Þá skoraði Valur þrjú í röð og jafnaði í 6:6 og náði í kjölfarið 14:12-forskoti. KA/Þór skoraði hins vegar þrjú síðustu mörk fyrri hálfleiks og var yfir í leikhléi 15:14.

Mikið jafnræði var með liðunum í seinni hálfleik en þegar fimm mínútur voru eftir var Valur með 26:24-forskot. Eins og áður segir skoruðu gestirnir hins vegar fjögur síðustu mörkin og tryggðu sér glæsilegan útisigur.

Martha Hermannsdóttir skoraði átta mörk fyrir KA/Þór, þar af átta úr víti, og Aldís Ásta Heimisdóttir gerði sex. Þar á eftir kom Unnur Ómarsdóttir með fimm. Matea Lonac varði 14 skot í markinu, þar af tvö víti.

Hjá Val skoraði Thea Imani Sturludóttir tíu mörk, þar af fjögur úr vítum, og þær Hildigunnur Einarsdóttir og Morgan Marie Þorkelsdóttir gerðu fjögur mörk hvor. Sara Sif Helgadóttir varði ellefu skot í markinu.

Þrátt fyrir úrslitin er Valur enn í toppsætinu með tólf stig en KA/Þór og Fram koma þar á eftir með níu stig.

Valur 26:28 KA/Þór opna loka
60. mín. Valur tapar boltanum 40 sekúndur eftir og KA/Þór í toppmálum!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert