Ómar með stórleik í enn einum sigrinum

Ómar Ingi Magnússon átti enn einn stórleikinn í dag.
Ómar Ingi Magnússon átti enn einn stórleikinn í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Magdeburg er enn með fullt hús stiga eftir ellefu leiki í þýsku 1. deildinni í handbolta eftir 33:29-útisigur á Füchse Berlín í kvöld. Sigurinn var stór fyrir Magdeburg því Füchse Berlín er í öðru sæti, en nú munar fimm stigum á liðunum.

Ómar Ingi Magnússon átti enn og aftur stórleik fyrir Magdeburg en hann skoraði níu mörk, þar af eitt úr víti. Gísli Þorgeir Kristjánsson stóð einnig fyrir sínu og skoraði þrjú mörk. Ómar hefur verið einn besti leikmaður Evrópu síðustu mánuði og átt hvern stórleikinn á fætur öðrum fyrir toppliðið.

Flensburg er í fjórða sæti með 14 stig eftir 31:26-sigur á Rhein-Neckar Löwen á heimavelli í Íslendingaslag. Teitur Örn Einarsson skoraði fjögur mörk fyrir Flensburg en Ýmir Örn Gíslason komst ekki á blað hjá Löwen, sem er í 12. sæti með níu stig.  

Í 2. deildinni skoraði Anton Rúnarsson fjögur mörk í 31:27-sigri á Grosswallstadt á heimavelli. Emsdetten er í 13. sæti með sjö stig eftir níu leiki.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert