Stórleikur Mörtu dugði ekki til

Marta Wawrzykowska fór á kostum í marki ÍBV.
Marta Wawrzykowska fór á kostum í marki ÍBV. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Fram hafði betur gegn ÍBV, 25:23, í hörkuleik í úrvalsdeild kvenna í handknattleik, Olísdeildinni, í Vestmannaeyjum í dag. Marta Wawrzykowska í marki ÍBV átti stórleik en hann dugði ekki til.

Framarar byrjuðu betur og komust í tveggja marka forystu, 4:2, snemma leiks.

Eftir að hafa komist í 6:4 tók hins vegar við frábær kafli hjá Eyjakonum sem skoruðu næstu sex mörk og komust þannig í 6:10.

Áfram héldu sveiflurnar í leiknum þar sem Fram brást við þessum kafla heimakvenna með því að skora sjö mörk í röð. Staðan þar með orðin 13:10.

Framarar náðu að halda þriggja marka forystunni og leiddu, 17:14, í leikhléi.

Framan af síðari hálfleik var Fram með fín tök á leiknum en um hann miðjan komust Eyjakonur nær og nær. Fram komst þá í 18:21 en Eyjakonur skoruðu þrjú mörk í röð og jöfnuðu þannig metin í 21:21.

Nær en þetta komust þær hins vegar ekki þar sem góður lokakafli Framara skilaði þeim að lokum sterkum tveggja marka sigri.

Áðurnefnd Marta varði 21 af þeim 46 skotum sem hún fékk á sig, sem er tæplega 46 prósent markvarsla.

Hafdís Renötudóttir í marki Fram átti þá sömuleiðis frábæran leik, en hún varði 14 af þeim 37 skotum sem hún fékk á sig, tæplega 38 prósent markvarsla.

Ragnheiður Júlíusdóttir var markahæst í leiknum í dag.
Ragnheiður Júlíusdóttir var markahæst í leiknum í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Stórskyttan Ragnheiður Júlíusdóttir var markahæst í leiknum með átta mörk fyrir Fram.

Markahæst Eyjakvenna var Þóra Björg Stefánsdóttir með sex mörk.

Fram er áfram í öðru sæti deildarinnar, með jafnmörg stig og topplið Vals, 22, en búið að spila einum leik meira.

ÍBV er í sjöunda og næstneðsta sæti með fjögur stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert