Markahæstur og á meðal þeirra stoðsendingahæstu

Ómar Ingi Magnússon á æfingu með íslenska landsliðinu í upphafi …
Ómar Ingi Magnússon á æfingu með íslenska landsliðinu í upphafi mánaðarins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það hefur vart varið framhjá nokkrum að Selfyssingurinn Ómar Ingi Magnússon hefur farið á kostum á tímabilinu með þýska handknattleiksfélaginu Magdeburg.

Ómar Ingi hefur verið í algjöru lykilhutverki í frábæru liði Magdeburg sem hefur unnið alla 11 leiki sína í þýsku 1. deildinni til þessa og er langefst á toppi hennar.

Hann endaði sem markakóngur deildarinnar í fyrra og hefur ekkert gefið eftir á þessu tímabili þar sem hann er markahæstur um þessar mundir með 74 mörk í leikjunum 11.

Örvhenta skyttan Ómar Ingi er þó ekki einungis að skora sjálfur því hann er þriðji stoðsendingahæsti leikmaður þýsku 1. deildarinnar á tímabilinu.

Hefur hann gefið 47 stoðsendingar og hafa aðeins tveir leikmenn Flensburg, þeir Mads Mensah Larsen og Jim Gottfridsson, gefið fleiri. Mensah Larsen hefur gefið 49 stoðsendingar og Gottfridsson 55.

Bjarki Már Elísson, hornamaður Lemgo, og Hans Óttar Lindberg Tómasson, danski landsliðsmaðurinn með íslensku foreldrana sem leikur með Füchse Berlin, deila 4. – 5. sæti yfir markahæstu leikmenn deildarinnar til þessa þar sem þeir hafa báðir skorað 61 mark.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert