Adam tryggði Haukum sigur

Kári Kristján Kristjánsson línumaður ÍBV í dauðafæri á Ásvöllum í …
Kári Kristján Kristjánsson línumaður ÍBV í dauðafæri á Ásvöllum í kvöld en Þráinn Orri Jónsson fylgist með. mbl.is/Unnur Karen

Adam Haukur Baumruk tryggði Haukum sigur á ÍBV í Olís-deild karla í handknattleik í kvöld þegar hann skoraði sigurmarkið á 59. mínútu. 

Haukar unnu 36:35 en leikið var á Ásvöllum í Hafnarfirði. Haukar náðu að vinna upp forskot ÍBV í síðari hálfleik en Eyjamenn virtust vera með nokkuð væntanlega stöðu um tíma. 

ÍBV var fjórum mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik og 21:17 og var enn með fjögurra marka forskot þegar um tíu mínútur voru eftir 29:33. Þá fóru Haukar að éta upp forskotið en þegar Adam kom þeim yfir undir lok leiksins voru Haukar yfir í fyrsta skipti síðan í stöðunni 14:13. 

Darri Aronsson átti flottan leik hjá Haukum og skoraði 9 mörk en Adam skoraði sjö úr aðeins átta tilraunum. Brynjólfur Snær Brynjólfsson og Tjörvi Þorgeirsson skoruðu fimm mörk hvor.

Rúnar Kárason fór mikinn hjá ÍBV og skoraði 12 mörk en Kári Kristján Kristjánsson kom næstur með 5 mörk.

Haukar eru með 13 stig á toppnum eftir átta leiki en ÍBV er með 10 stig í 4. sæti eftir sjö leiki. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert