Níu mörk frá Vestmannaeyjum í tapi

Elliði Snær Viðarsson skoraði sex mörk fyrir Gummersbach.
Elliði Snær Viðarsson skoraði sex mörk fyrir Gummersbach. AFP

Topplið Gummersbach tapaði toppslag þýsku B-deildarinnar gegn Hagen 40:36 í handbolta í kvöld. Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar Gummersbach en með liðinu leika þeir Hákon Daði Styrmisson og Elliði Snær Viðarsson.

Elliði Snær skoraði sex mörk og var næst markahæsti leikmaður liðsins. Hákon Daði Styrmisson skoraði þrjú og komu því samtals níu mörk frá Vestmannaeyjingunum tveimur. 

Þrátt fyrir tapið er Gummersbach ennþá á toppi deildarinnar með 18 stig en Hagen fór upp í annað sætið með sigrinum og eru nú með 16 stig.

Aue tapaði svo 35:26 gegn Hüttenberg í sömu deild. Arnar Birkir Hálfdánarson skoraði þrjú mörk og lagði upp önnur fjögur fyrir Aue. Sveinbjörn Pétursson náði sér ekki alveg á strik og varði einungis eitt skot í marki Aue.

Aue eru í 14. sæti deildarinnar með átta stig eftir 11 leiki. Hüttenberg eru við hlið Hagen í þriðja sætinu með 16 stig.

Í Danmörku varði Ágúst Elí Björgvinsson 11 skot í 35:33 tapi Kolding gegn Fredericia. Kolding eru í 12. sæti deildarinnar með 6 stig eftir 11 leiki á meðan Fredericia eru í 3. sætinu með 15 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert