Fram á toppinn eftir spennuleik í Garðabæ

Framarar fagna sigrinum í Mýrinni í kvöld.
Framarar fagna sigrinum í Mýrinni í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fram sótti tvö stig í Garðabæinn í Olís-deild kvenna í handknattleik í kvöld þegar liðið vann Stjörnuna 26:25 eftir spennuleik.

Virkilega góður leikkafli hjá Fram seint í fyrri hálfleik hafði nokkuð að segja um stöðuna í hléi. Stjarnan var 11:9 yfir en Fram tókst þá að skora fimm mörk í röð og breyta stöðunni í 11:14. 

Stjarnan jafnaði 14:14 með því að skora fyrstu þrjú mörkin í síðari hálfleik og náði liðið þriggja marka forskoti 21:18. 

Leikreyndir leikmenn Fram fóru ekki á taugum og voru aftur komnar yfir 24:23 þegar sex mínútur voru eftir. Ragnheiður Júlíusdóttir skoraði sigurmark Fram úr vítakasti en þá voru enn þrjár mínútur eftir. Liðunum tókst sem sagt ekki að nýta síðustu sóknirnar. 

Ragnheiður var markahæst eins og oft áður hjá Fram og skoraði 10 mörk í þetta skiptið en fimm þeirra komu af vítalínunni. Helena Rut Örvarsdóttir var atkvæðamest hjá Stjörnunni með 8 mörk. 

Darija Zecevic var öflug í marki Stjörnunnar og varði 20 skot en Írena Björk Ómarsdóttir varði 10 í marki Fram en þar af varði hún tvö vítaköst. 

Með sigrinum komst Fram á toppinn og er með 13 stig eftir átta leiki. Valur er með 12 stig og á leik til góða. Stjarnan er með 4 stig eftir átta leiki í 7. sæti en ÍBV er einnig með 4 stig en eftir sjö leiki. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert