Íslensku liðin eru betri en þetta

Sigurður Bragason fer yfir málin með leikmönnum í kvöld.
Sigurður Bragason fer yfir málin með leikmönnum í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Sigurður Bragason, þjálfari meistaraflokks kvenna hjá ÍBV í handknattleik, stýrði liði sínu til sigurs í fyrri leiknum í 32-liða úrslita Evrópubikarsins í handknattleik í kvöld.

Liðið tók þá á móti grísku liði sem ber heitið Panorama í Vestmannaeyjum en leiknum lauk með sex marka sigri ÍBV, í leik sem tæknilega séð var heimaleikur gríska liðsins en fór þó fram á heimavelli ÍBV.

„Ég var ekki ánægður með hvernig við enduðum, auðvitað er ég að gefa leikmönnum séns og ég verð að gera það. Þær verða að fá að gera sín mistök og það hefði verið glatað af mér að segja þeim að koma inn á og gera mistök og taka þær síðan útaf. Það var líka fullt fínt sem þær gerðu, við vorum allar líka full soft. Mér fannst þær (gestirnir) vaxa eftir því sem leið á leikinn og verða öruggari. Við hefðum átt að vinna með tíu.“

Sigur



„Voðalega lítið, ég sá einn hálfleik hjá þeim þegar við vorum úti í Grikklandi, þær spiluðu á eftir okkur. Mér fannst satt best að segja þær ekkert spes, en þær voru þó klassa fyrir ofan andstæðinga sína þar. Það var mjög lélegt lið, en í þessu liði eru þær þrjár fínar, flottur markmaður, síðan leikmaður númer 22 og ein fín örvhent. Þær geta þetta alveg og í restina keyrðu þær miklu meira á okkur,“ sagði Sigurður en hann segist ekkert hafa verið smeykur þrátt fyrir jafna byrjun.

„Það er ekkert óeðlilegt að það sé aðeins verið að þreifa í upphafi leiks, við vorum kannski aðeins yfirtensaðar og 6-0 vörnin okkar var léleg. Þegar við breyttum í 5+1 með Hörpu fyrir framan þá tókum við 8-1 kafla, ég var aldrei stressaður samt.“

Lina Cardell þurfti að fara af velli vegna meiðsla snemma leiks og inn kom Sara Dröfn Richardsdóttir sem spilaði mjög vel.

„VIð erum búnir að vera að gefa henni séns í vetur og við búum að því, hún kom ekki inn blaut bakvið eyrun. Hún var rosalega flott og er algjör töffari, með sex mörk úr sex skotum, hún er framtíðareintak. Það versta er að nú er hún farin í Herjólf og fer út með U18-ára landsliðinu eins og Þóra (Björg Stefánsdóttir) og Amelía (Dís Einarsdóttir). Það sýnir að við eigum fullt af flottum ungum og efnilegum stelpum,“ sagði Sigurður en hann sagði einnig að meiðsli Linu væru ekki alvarleg, hann hafi viljað spara hana fyrir seinni leikinn þar sem Þóra og Sara, sem eru hinir örvhentu leikmenn liðsins séu á leið erlendis og missa af seinni leiknum.
Aníta Björk Valgeirsdóttir sækir að marki gríska liðsins í kvöld.
Aníta Björk Valgeirsdóttir sækir að marki gríska liðsins í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar




„Íslensku liðin eru betri en þetta og handboltinn sem við erum búnar að vera að sýna er betri en þetta. Við erum búnar að keyra svolítið, en við getum ekkert leyft okkur að gera það gegn mikið betri liðum, eins og liðunum hér heima. Dómgæslan er góð í keppninni og þetta er allt öðruvísi dómgæsla en í deildinni hér heima,“ sagði Sigurður um muninn á deildinni og Evrópuverkefnum en ÍBV er með 4 stig í 7. sæti Olísdeildarinnar.

Eyjakonur eru ekki í góðum málum í Olísdeildinni og segir Sigurður það vera svekkjandi.

„Það er svekkelsi, við erum búnar með 1/3 af mótinu. Í ágúst fórum við í æfingaferð og vorum að fara í lokaæfingu fyrir það að vera á toppnum, við ætluðum okkur það. Við erum að setja pening í þetta og það eru allir, stjórnin, ég og stelpurnar öll all-in. Í þeirri ferð þá fær Hrafnhildur (Hanna Þrastardóttir) símtal þar sem henni er tjáð að hún þurfi að fara í aðgerð og verði frá í fimm mánuði. Viku seinna slítur Birna Berg (Haraldsdóttir) krossband, þar er búið að taka út tvo hrikalega mikilvæga pósta. Elísa dettur síðan út um daginn og það er hvert áfallið á fætur öðru búið að dynja á okkur. Ég ætla samt ekkert að ljúga, ég hefði viljað vera með þremur stigum meira.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert