Eyjakonur unnu góðan 26:20 sigur á gríska liðinu AEP Panorama er liðin mættust í 32-liða úrslitum Evrópubikars kvenna í handknattleik í Vestmannaeyjum í kvöld.
Fyrir leikinn bjuggust flestir við auðveldum sigri ÍBV en þær unnu sterkara grískt lið í síðustu umferð. ÍBV leikur báða leikina heima, en í síðustu umferð lék liðið báða leikina í Grikklandi.
Leikurinn fór skemmtilega af stað og voru gestirnir frá Grikklandi duglegir að jafna metin þegar ÍBV hafði náð forystu, þeim tókst þó aldrei að leiða leikinn en ÍBV leiddi með sex marka mun í hálfleik, 9:15, en leikurinn var tæknilega séð heimaleikur gríska liðsins. Harpa Valey Gylfadóttir skoraði fjögur mörk fyrir ÍBV í fyrri hálfleik en Erika Zeneli var markahæst gestanna í fyrri hálfleik með þrjú mörk.
ÍBV varð fyrir áfalli á 18. mínútu en þá hoppaði Lina Cardell, hornamaður liðsins, af velli vegna meiðsla. Sara Dröfn Richarsdóttir kom inn í staðinn og átti hún mjög góða innkomu þar sem hún skoraði fljótlega tvö mörk. ÍBV er í miklum meiðslavandræðum eins og er en þrír lykilmenn liðsins eru meiddir.
Eyjakonur byrjuðu seinni hálfleikinn frábærlega og komust 12 mörkum yfir þegar kortér var búið af honum. Eftir það skipti liðið mikið inn á og fengu allir leikfærir leikmenn liðsins mínútur og það nýttu gestirnir sér með því að minnka muninn í sex mörk.
Sara Dröfn lék áfram frábærlega í seinni hálfleik og skoraði samtals sex mörk úr sex skotum, tveimur færri en Harpa Valey sem var markahæst í leiknum. Hjá gestunum skoraði Agni Papadopoulou mest eða fjögur mörk, ásamt Lamprini Karaveli. Agni var frábær í leiknum en hún lék bara í seinni hálfleik og var langbest í liði gestanna.
Ljóst er að Eyjakonur þurfa að fara ansi illa að ráði sínu ætli þær ekki að vera í pottinum þegar dregið verður í 16-liða úrslitin.