Elísa Elíasdóttir, leikmaður ÍBV í handknattleik kvenna, er meidd á öxl og leikur af þeim sökum ekki með liðinu aftur fyrr en á nýju ári.
„Það er hvorki brot né slit í öxlinni en mælt er með því að Elísa taki sér frí fram að áramótum,” sagði Vilmar Þór Bjarnason, framkvæmdastjóri handknattleiksdeildar ÍBV, við Handbolta.is.
Elísa varð fyrir þungu höggi á aðra öxlina í leik ÍBV gegn Val í síðustu viku.
Elísa er þrátt fyrir að vera aðeins 18 ára gömul í lykilhlutverki hjá ÍBV.
Eyjakonum hefur ekki gengið nægilega vel í úrvalsdeild kvenna, Olísdeildinni, á tímabilinu þar sem ÍBV situr í næstneðsta sæti með 4 stig að loknum sjö leikjum.