Sunna Jónsdóttir, fyrirliði ÍBV, var augljóslega ánægð með sigurinn í 32-liða úrslitum Evrópubikarsins í dag er ÍBV lagði gríska liðið Panorama að velli í annað sinn á innan við sólarhring.
„Markmiðinu er náð og við hlökkum til að sjá hverja við fáum og við hlökkum til næstu umferðar,“ sagði Sunna eftir samanlagðan 11 marka sigur ÍBV í einvíginu. Sunna skoraði 4 mörk í dag og fór fyrir liði sínu í vörn og sókn.
Við hverju bjuggust liðsmenn ÍBV fyrir einvígið?
„Við vissum ekki alveg hvað við vorum að fara út í, en við vissum að þetta væri líklega slakara lið á pappír en það sem við unnum í síðustu umferð. Við settum okkur það markmið að ná sem bestri frammistöðu í leikjunum tveimur og við vissum að við gætum unnið þær ef við myndum spila vel, það gekk eftir,“ sagði Sunna en var hún ánægð almennt með frammistöðuna í þessum tveimur leikjum?
„Það mikilvægasta í þessu er það að við unnum, þetta var mjög kaflaskipt hjá okkur og dýrmætar mínútur sem ungir leikmenn fengu. Við höfum lent í ýmsum áföllum í haust og upp á síðkastið þannig að mér finnst við sterkar andlega. Við getum samt auðvitað spilað betur og þurfum að nýta hverja einustu æfingu í það að bæta okkur.“
Sigrarnir voru tveir um helgina, en ÍBV hefur einungis náð í tvo sigra í Olísdeildinni á tímabilinu. „Það er það sem skiptir máli, að vinna, það gefur okkur líka aukinn kraft og sjálfstraust.“
Hvernig horfir framhaldið við Sunnu, í desember?
„Við verðum að halda áfram að nýta hvern leik og hverja mínútu á gólfinu sem við fáum til að bæta okkur. Það er fullt af ungum og efnilegum stelpum, við sem eldri erum þurfum aðeins að spila okkur betur saman. Það eru nokkrar að fara í landslið núna og svo erum við með eina frá Serbíu sem gæti verið að fara á lokamót, kannski verður því einhverjum leikjum frestað. Við verðum að taka einn dag í einu og vera allar með það að markmiði að bæta okkur sem lið.“
Sér Sunna möguleika fyrir ÍBV að fara enn lengra í keppninni?
„Það fer allt eftir því hvaða lið við fáum, við erum ofboðslega stoltar af því að ná þessum árangri og fögnum því að hafa fengið að taka þátt í þessari keppni. Geggjaður stuðningur sem við fáum og ÍBV stendur vel við bakið á okkur, við tökum einn leik í einu og reynum að komast eins langt og við getum.“