Stjarnan er komin aftur á sigurbraut í Olísdeild karla í handbolta eftir tvö töp í röð en Stjörnumenn unnu HK á útivelli í dag, 25:23.
HK byrjaði miklu betur og komst í 5:1 en Stjörnumenn náðu að jafna fyrir hálfleik og var staðan í leikhléi 10:10.
Mikið jafnræði var með liðunum í seinni hálfleik og var Stjarnan með 20:19-forskot þegar átta mínútur voru til leiksloka. HK tókst ekki að jafna eftir það og Stjarnan fagnaði útisigri.
Leó Snær Pétursson skoraði sex mörk fyrir Stjörnuna og Arnór Freyr Stefánsson varði 12 skot. Hjörtur Ingi Halldórsson skoraði sex mörk fyrir HK.