Íslandsmeistarar KA/Þórs töpuðu fyrri leiknum gegn Elche 22:18 í 32-liða úrslitum Evrópubikars kvenna í handbolta á Spáni í dag.
Báðir leikirnir fara fram á Spáni en heimakonur unnu að lokum 4 marka sigur. Elche vann bikarkeppnina á Spáni á síðasta tímabili svo ljóst er að þarna er á ferð hörkulið.
Unnur Ómarsdóttir og Rakel Sara Elvarsdóttir voru markahæstar í liði KA/Þórs með fjögur mörk hvor. Aldís Ásta Heimisdóttir og Martha Hermannsdóttir komu svo næstar með þrjú.
Í liði Elche var África Sempere Herrera markahæst með sex mörk.
Seinni leikur liðanna fer fram strax á morgun og þrátt fyrir tap dagsins er enn séns fyrir norðankonur að komast áfram í keppninni.
Í síðustu umferð sló KA/Þór út meistarana frá Kosóvó, KHF Istogu. Þá fóru báðir leikirnir fram í Kosóvó en það virtist ekki koma að sök.